Sýningin samanstendur af áhugaverðum innsetningum sem settar eru upp í almenningsrýmum víða um borgina og teygja sig einnig út á land til Akureyrar, á Akranes, og á Suðurland þar sem félagsmenn búa og starfa. Rammagerðin á Skólavörðustíg verður miðpunktur sýningarinnar, Þar sem allar upplýsingar um sýnendur, sýningarstaði ásamt korti eru aðgengilegar gestum auk þess sem sett verður upp lifandi leirvinnustofa í glugga verslunarinnar þar sem fólki gefst kostur á að fylgjast með leirmunum verða til. Félagsmenn nálgast viðfangsefnið á fjölbreyttan hátt í sameiginlegu þema sem er spennandi fyrir listunnendur til að kynna sér leirlist á Íslandi í dag sem er á mörkum iðnaðar, lista, nytjalista og hönnunar. Áhugi almennings á leirlist og keramikhönnun hefur aukist undanfarin misseri sem og meðvitund fólks fyrir gildi góðs handverks og hönnunar.
Ellefu félagsmenn taka þátt í þessum viðburði þar sem hver þátttakandi hannar snaga sem hann kemur fyrir í opnu almenningsrými ýmist úti eða inni. Vegfarendur geta fylgt leiðarkorti snaganna, staldrað við og hengt af sér.
Sýnendur eru: Bjarni Viðar Sigurðsson, Dagný Gylfadóttir, Guðný Hafsteinsdóttir, Halla Ásgeirsdóttir, Hólmfríður Vídalín Arnagrímsdóttir, Katrín Valgerður Karlsdóttir, Kolbrún Sigurðardóttir, Margrét Árnadóttir, Margrét Jónsdóttir, Ragna Ingimundar og Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir.
Smelltu hér til að lesa nánar um viðburðinn á Facebook