Heimilisiðnaðarskólinn hefur gefið út dagskrá yfir haustið 2016 (sjá hér). Að venju eru mörg spennandi námskeið í boði, sambland af klassískum námskeiðum og nýjungum.
Af nýjungum má nefna námskeið í körfuvefnaði, endurvinnslu úr gömlum gallabuxum, lérefti eða auglýsingaveggspjöldum, handverksdag fyrir börn og fjölskyldur og hjartadag um miðjan nóvember. Örnámskeið sem aðeins vara eina kvöldstund hafa notið vinsælda en á slíkum námskeiðum má læra að spinna á halasnældu, vattarsaum, flétta kaffipoka, gera brauðkörfu eða endurvinna ýmis efni sem til falla.
Fjölmörg útsaumsnámskeið eru í boði. Má þar nefna tveggja kvölda námskeið í bróderuðum upphafsstöfum, gamlar íslenskar útsaumsgerðir, Skals þrívíddarsaumur, svartsaumur og hvítsaumur. Knipl og orkering er á sínum stað. Fimm vikna námskeið í vefnaði fyrir byrjendur og lengra komna hefst seinni hlutann í október.
Af þjóðlegum námskeiðum má nefna tóvinnu þar sem nemendur læra gömul vinnubrögð við ullarvinnslu. Vattarsaumur er eldri en prjón en hann ná má góðum tökum á þeirri aðferð á þriggja kvölda námskeiði. Þá eru ótalin námskeið í myndvefnaði og skáfléttun kaffipoka.
Boðið er upp á byrjendanámskeið í hekli. Stjörnuhekluð teppi úr plötulopa eru ómótstæðileg en slík teppi má hekla á þar til gerðu námskeiði. Þeir sem vilja virkja ímyndunaraflið geta lært að hekla barnapeysu úr eigin afgöngum án uppskriftar. Gimb er skemmtileg aðferð þar sem notaður er sérstakur gimbgaffall til að hekla lengjur en úr þeim má t.d. gera falleg sjöl.
Klassísk þjóðbúninganámskeið, þjóðbúningasaumur kvenna hefjast í lok september. Einnig er boðið upp á námskeið í gerð peysufatapeysu, höfuðbúnaðar, undirpilsasaumi og útsaumi í peysufatabrjóst.
Velkomin á námskeið! – skráning á netfangið skoli@heimilsidnadur.is eða í síma 551 5500.