Spor

Leirlistafélag Íslands hefur í ár fagnað 35 ára afmæli sínu með fjölda viðburða, sýningin Spor sem opnar föstudaginn 16.desember er síðasti afmælisviðburður ársins, verður bæði í anddyri Hönnunarmiðstöðvar Íslands í Aðalstræti 2 og á veggjum gamla Morgunblaðshússins í Aðalstræti 6-8. 

Í Hönnunarmiðstöð Íslands eru verk heiðursfélaga Leirlistafélagsins þeirra Gests Þorgrímssonar, Sigrúnar Guðjónsdóttir og Steinunnar Marteinsdóttur sett fram. Sem frumkvöðlar og brautryðjendur í faginu marka verk þeirra spor í íslensku landslagi leirlistar þar sem í dag hafa myndast stígar sem liggja vítt og breytt um víðáttur sköpunarinnar. 

Á báðum hliðum Morgunblaðshússins sem snúa inn í Bröttugötu og Fischersund er varpað upp myndasýningu á verkum félagsmanna. Þar eru annars vegar myndir sem voru settar saman fyrir sýningu félagsins Keramík í Listasafni Árnessinga á þessu ári og hins vegar myndum sem teknar voru af verkum á sýningunni sjálfri. 

Myndasýningarnar draga upp mynd af þeim margbreytileika og grósku sem einkennir íslenska leirlist í dag og stikla á stóru í sögu félagsins á þeim 35 árum sem það hefur verið starfandi. 

Sýningarnar opnar 16. desember kl.17 í húsnæði Hönnunarmiðstöðvar Íslands í Aðalstræti 2 og á veggjum Aðalstrætis 6-8.  Sporgöngufólk, sýning á verkum heiðursfélaga í Hönnunarmiðstöð Íslands stendur til 29. desember en myndasýningin á veggjum gamla Morgunblaðshússins stendur til 23. desember. 

Verið velkomin!