Næstkomandi sunnudag, 1. desember, lýkur hinni mánaðarlöngu vinnusmiðju þegar Gryfjunni í Ásmundarsal verður breytt í litla postulínsverslun þar sem hægt verður að líta augum og festa kaup á afrakstrinum. Smáhlutirnir sem unnir hafa verið síðastliðinn mánuð bera með sér að vera gerðir úr náttúrunni, hver og einn einstakur með sitt útlit og karakter. Hráefnin koma beint úr náttúrunni, einkum frá tveimur stöðum á Ströndum og í Lóni, en önnur svæði hafa einnig komið við sögu, og hafa frá söfnun verið unnin á frumstæðan hátt án mikilla inngripa. Þannig eru jarðefnin ekki hreinsuð eða stöðluð líkt og erlend efni sem ætluð eru í fjöldaframleiðslu leirmuna, og því geta birst hvers kyns óvænt litbrigði í vinnslunni og formin jafnvel aflagast í brennslu. Bæði hafa verið renndir litlir vasar sem hugsaðir eru fyrir fínlega og harðgera flóru Íslands, en einnig hafa afsteypur af steinum frá leitinni verið steyptir úr hinum íslensku postulínsefnum. Með smæð sinni, fínleika og hráu yfirbragði eru gripirnir vísun í samband Íslendinga við postulín í gegnum aldirnar, sem ávallt hefur verið dýrmætt og fágætt innflutt efni, eins konar demantar í hrjúfri og óblíðri náttúru og samfélagi. Í hlutunum fléttast þannig íslensk náttúra, saga postulíns, sambands manns og náttúru og jafnvel jarðsagan sjálf.
Leit að postulíni er rannsóknarverkefni á þeim möguleikum og hindrunum sem felast í nýtingu íslenskra jarðefna til að búa til postulín. Verkefninu var hrundið af stað árið 2016 af Brynhildi Pálsdóttur, hönnuði, Ólöfu Erlu Bjarnadóttur, keramiker, og Snæbirni Guðmundssyni, jarðfræðingi. Núna í nóvember hefur leitin haldið áfram í Ásmundarsal þar sem Gryfjan hefur verið undirlögð af tilraunum úr íslenskum jarðefnum, möguleikum þeirra velt upp og smáhlutir verið unnir á staðnum sem endurspegla söguna og efnin í þeirra náttúrulega samhengi.