Sumarsýning í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.
Þetta er fjórtánda árið í röð sem opnuð er ný sýning í Heimilisiðnaðarsafninu. Sýningarnar hafa allar verið mjög ólíkar en gefa innsýn í fjölbreyttan listiðnað og handmennt íslenskra kvenna. Má segja að sýningarnar séu stolt og eitt sterkasta sérkenni safnsins.
Sýningin í ár er samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, Heimilisiðnaðarfélags Íslands og Kristínar Schmidhauser Jónsdóttur. Sýningin ber heitið „Prjónað af fingrum fram“ og vísar þar til samnefndar bókar eftir Kristínu sem kom út í tilefni aldarafmælis Aðalbjargar Jónsdóttur. Er bókin helguð fáguðu handverki og listsköpun Aðalbjargar sem er samofin lífshlaupi hennar og minningum og er jafnframt mikilvægur þáttur í menningar- og tóvinnusögu okkar Íslendinga.
Á sýningunni eru 12 handprjónaðir kjólar eftir Aðalbjörgu og eru flestir í eigu fjölskyldu hennar en einnig nokkrir sem lánaðir eru frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Kjólarnir eru allir frábrugðnir hver öðrum, en Aðalbjörg prjónaði kjólana „af fingrum fram“ það er án nokkurra uppskrifta, lét innri tilfinningu, liti og form ráða för. Það tók hana um það bil einn mánuð að prjóna hvern kjól en þá var fædd ný hugmynd sem hún varð að koma frá sér.
Talið er að Aðalbjörg hafi prjónað rúmlega eitt hundrað kjóla. Má rifja upp að árið 1982 hélt hún einkasýningu á Kjarvalsstöðum á handprjónuðum kjólum úr íslenskri ull. Þar sýndi hún 40 kjóla sem allir voru mjög ólíkir hver öðrum, bæði í formi og litavali.
Kjólar Aðalbjargar hafa vakið verðskuldaða athygli á ýmsum sýningum bæði innanlands og utan, þar sem allt fer saman, hugmyndaauðgi, hönnun og handbragð. Það sama átti sér stað í gær þar sem gestir áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa hrifningu sinni og undrun hvernig hægt hafi verið að prjóna undurfína, fislétta, útsniðna viðhafnarkjóla úr íslenskri ull. Það var „Gefjunareingirnið“ eða einspinnan sem svo var kölluð – úrvalsull, sem Aðalbjörg nýtti.
Aðstandendur sýningarinnar hvetja alla sem eiga leið um Blönduós að gefa sér stund í Heimilisiðnaðarsafninu, þar sem sjá má ekki aðeins Sumarsýningu safnsins heldur einnig aðrar sýningar sem bera með sér einstaklega fallegt handbragð genginna kynslóða.
Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst, frá kl. 10:00 – 17:00.