Ýr Jóhannsdóttir hefur skapað textíl undir nafninu Ýrúrarí frá 2012. Ýr hefur vakið athygli fyrir prjónuð verk sín og þá sérstaklega fyrir tilraunarkenndar og kímnar peysur. Verk Ýrar hafa verið sýnd á Íslandi og víðar, en nú síðast í New York í glugga Textile Arts center í febrúar 2019. Þar nutu endurunnar peysur Ýrar mikla athygli þar sem hún vinnur með peysurnar sem tóman striga og prjónar á þær íklæðanleg verk. Út frá velgengninni vestanhafs varð til sýningin “Svona myndi ég ekki gera” þar sem nokkrar óheppnar gamlar peysur mæta örlögum sínum.
Ólíkt fyrri verkum Ýrar þar sem praktík er í fyrirrúmi fá peysur sýningarinnar aðra meðferð. Þar má nefna norska lopapeysu sem vex kjaftop á baki, kaðlapeysa sýkist af kambgarnskláða og ein sígild akrýl rósapeysa frá sjöunda áratugnum hrökklast í sundur í formi verka á vegg.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér
Sýningin stendur yfir til 20. ágúst 2019.