Til að fagna evrópsku menningararfsári ákvað Safnasafnið að setja upp sýningu á 360 fuglum úr safneign sinni, sem geymir um 600 fugla alls. Á sýningunni eru farfuglar, staðfuglar, skrautfuglar og ævintýrafuglar úr ólíkum hugmyndasmiðjum, en allir eiga þeir heima í Safnasafninu, margir hafa dvalið þar frá stofnun 1995 en aðrir eru nýflognir í hús.
Í anddyri sýna börn úr Valsárskóla og Álfaborg verk tengd 100 ára afmæli fullveldis Íslands og Bjarni Þór Þorvaldsson teikningar.
Í vestursal er sýning á máluðum húsalíkönum úr pappa eftir Gunnar Sigfús Kárason (1931-1996) frá Sólheimum. Sýningin er í samstarfi við listahátíðina List án landamæra. Einnig eru á sýningunni tvö æskuverk eftir Erró sem sýna ímyndaðar byggingar og líkön sem skólabörn á Grenivík gerðu af húsum í þorpinu sínu.
Í austursal eru teiknaðar og málaðar myndir eftir Ingvar Ellert Óskarsson (1944-1992) og útskorin verk eftir Matthías Má Einarsson. Verk beggja bera með heillandi andblæ einlægni og sjálfsprottinnar fegurðar sem auðvelt er að hrífast af og njóta. Sýningin er í samstarfi við listahátíðina List án landamæra.
Í norðursölum efri hæðar sýna Halla Birgisdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. Í langasal sýnir Ívar Valgarðsson ljósmyndir.
Í bókastofunni sýnir Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson ný verk úr plastperlum, þar er einnig að finna bókverkið BUGS og valin verk úr safneign eftir Arnar Herbertsson, Olofu Nordal og Stefán Fjólan.
Í versluninni sýnir Bryndís Símonardóttirverk tengd vorkomu og farfuglum og í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Svalbarðsstofu, er sýningin Bróderað landslag. Þar eru sýnd sérkennileg myndverk frá árunum 1916-1959, þar sem himinn og vatn er málað en landslag saumað út með listsaumi.
Brúðusafnið sýnir að venju þjóðbúningabrúður frá fjöldamörgum löndum og auk þess brúðugjöf úr eigu Elínar Jónsdóttur (1918-2013).
Á útisvæði er samsýningin Handan Norðanvindsins með verkum þeirrra Barbara Ridland, Kristínar Reynisdóttur og Málfríður/ar Aðalsteinsdóttur, en einnig má sjá úti fyrir verk eftir Ragnar Bjarnason, Hjalta Skagfjörð Jósefsson og Yngva Örn Guðmundsson.