Sýningin í Ráðhúsi Reykjavíkur verður í nóvember
- óvissa um framtíð HANDVERKS OG HÖNNUNAR
Samkvæmt stöðu mála í dag gæti hugsast að sýningin í nóvember verði síðasta verkefni HANDVERKS OG HÖNNUNAR nema að úr rætist í fjármögnun verkefnisins.
Reksturinn hefur verið afar erfiður frá 2008. Síðustu fjögur ár hafa verið sérstaklega erfið og stofnunin ekki náð endum saman nema með sérstöku viðbótarframlagi frá stjórnvöldum. Samkvæmt samningi við stjórnvöld vegna 2021 er ljóst að róðurinn verður enn þyngri því sá samningur er einungis gerður til eins árs og fjárveitingin dugar ekki til að halda óbreyttum rekstri.
Engu að síður er stefnt að því að halda HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember, sjá umsóknareyðublað. Umsóknarfrestur er til 16. september.
Vegna heimfaraldursins og þeirra takmarkana sem honum fylgdu þurfti að aflýsa sýningunni á síðasta ári með litlum fyrirvara og voru það mikil vonbrigði fyrir alla þá sem höfðu undirbúið sig fyrir þátttöku.
Það yrði mjög þungbært að þurfa að hætta starfsemi HANDVERKS OG HÖNNUNAR eftir 27 ára starf. Haldnar hafa verið fjölmargar sýningar/kynningar um allt land og margir hafa fengið ráðgjöf í tengslum við gæðamál, vöruþróun, verðlagningu og markaðsmál. Þess má geta að 90% af starfandi handverks- og listiðnaðarfólki eru konur.