Álfkonudúkurinn frá Bustarfelli er þjóðargersemi frá 17. öld sem varðveittur er á Þjóðminjasafni Íslands. Sagan segir að húsfreyjan á Bustarfelli hafi á sínum tíma fengið hann í gjöf frá álfum. Sýningin LAUSIR ENDAR speglar vinnu fornleifafræðingsins Birgit Lund og listakonunnar Ingrid Larssen sem dvöldu á Vopnafirði síðast liðið haust og urðu heillaðar af Álfkonudúknum og sögu hans. Við opnun sýningarinnar verða niðurstöður rannsókna Birgitar á dúknum kynntar en hún hefur borið dúkinn saman við sambærilega dúka í Noregi og þannig fundið vísbendingar um uppruna hans. Þá verða sýnd verk eftir Ingrid sem unnin eru undir áhrifum frá dúknum. Áhersla er lögð á frásagnalistina og sögulegar heimildir því í dúknum fléttast saman menningarsaga og listræn tjáning.
Þjóðminjasafn Íslands hefur ákveðið að sýna Álfkonudúkinn á Vopnafirði helgina 19. – 20. ágúst af þessu tilefni og mun það vera í fyrsta skipti sem Álfkonudúkurinn kemur til Vopnafjarðar eftir að hann fór í varðveislu til Þjóðminjasafnsins. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður mun opna sýninguna.
Þær Birgit og Ingrid hafa unnið á áhugaverðan og óvanalegan hátt að verkefninu LAUSIR ENDAR. Birgit hefur sem fornleifafræðingur rannsakað dúkinn og borið hann saman við tvo dúka frá sama tíma sem varðveist hafa í Noregi, annars vegar í Giske og hinsvegar í Kvernes. Dúkarnir eru sláandi líkir Álfkonudúknum, bæði hvað varðar myndmál og útsaumstækni. Hún mun kynna rannsóknir sínar í fyrirlestri á opnun sýningarinnar á Vopnafirði auk þess sem rannsóknum hennar eru gerð skil í nýútkominni bók sem kynnt verður samhliða sýningunni. Birgit hefur unnið að því að fá svar við stórum spurningum um dúkana sem leitt hafa til fleiri spurninga sem gerir
rannsóknina enn meira spennandi. Erindi Birgit verður þýtt jafnóðum á íslensku af Elsu Guðnýju Björgvinsdóttir safnstjóra Minjasafns Austurlands. Birgit er lektor og fornleifafræðingur auk þess sem hún hefur unnið sem barna- og unglingakennari og hefur lagt áherslu á það í kennslu sinni að vekja áhuga barnanna á heimahögum og eigin menningu.
Ingrid Larssen hefur aftur á móti unnið listaverk undir áhrifum frá Álfkonudúknum og sögu hans sem sýnd verða á sýningunni. Ingrid vinnur verk sín nær eingöngu í textíl og í þessum verkum notar hún útsaumstækni við gerð myndanna. Ingrid hefur frá árinu 2011 verið á opinberum listamannalaunum frá norska ríkinu. Þá hefur Ingrid unnið með börnum og fullorðnum á Vopnafirði og verður afrakstur þess samstarf kynntur á sýningunni. Ingrid hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði heima og erlendis og verið virk í menningarsamstarfi Austurlands og Vesterålen.
Sýningin LAUSIR ENDAR er afrakstur margra ára menningarsamstarfs Austurlands/Austurbrúar og menningarráðs Vesterålen í Norður Noregi. Til þess að þessi sýning verði að veruleika er auk listamannanna um að ræða samstarf Vopnafjarðarhrepps, Minjasafns Bustarfells, Þjóðminjasafns Íslands, Minjasafns Austurlands og Austurbrúar.
Upplýsingar veita: