TEKSTI – TEXTI

Päivi Vaarula og Ragnheiður Björk Þórsdóttir opna sýninguna TEKSTI – TEXTI í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins í Kaupvangsstræti 12 á Akureyri kl. 17.00 - 20.00, föstudaginn 14. apríl. Sýningin stendur yfir til 23. apríl og er opin alla daga nema mánudag og þriðjudag, frá 14.00 - 17.00.

Päivi og Ragnheiður eru báðar veflistakonur. Päivi er finnsk en þær Ragnheiður sýndu fyrst saman í Hämeenlinna í Finnlandi sl. haust og sýna nú saman í fyrsta sinn á Íslandi. Sýningin heitir Teksti/Texti en orðið hefur sömu merkingu á finnsku og íslensku. Orðið stendur einnig fyrir textíl og vefnað en orðið ,,texera” á latínu merkir einnig að vefa. Þannig er vefurinn merkingarbær, inniheldur skilaboð og segir sögu. Verkin eru öll unnin á þessu og seinasta ári. Päivi Vaarula dvelur í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri í apríl mánuði.