Sýningin stendur til 13. nóvember og er opin virka daga kl. 12-18 og laugardaga kl.13-16.
„Textíllistakonan Helga Pálína Brynjólfsdóttir hefur nú um árabil gert tilraunir með að sauma í kletta, litglæða grábrún blæbrigði móbergsins en líka spýtur, nýjar og gamlar. Hún rillar og vefur, holar aftan og stingur framan til að laða fram skúlptúr, línur og horn.
Á sýningunni í Safnahúsinu kallar Helga Pálína með þráðum sínum fram nýjar tengingar í spýtum og steinum, hyllir náttúruna og söguna, umbreytir henni og víkkar sýn með indíánskri litadýrð og fíngerðu bróderíi. Fortíðin og framtíðin, hið harða og hið mjúka, hið kvenlæga og hið karllæga, djúp jarðar og húrrandi nútímatækni stíga hér leikandi dans“. (Texti: Jórunn Sigurðardóttir)
Helga Pálína Brynjólfsdóttir (f. 1953) útskrifaðist úr textíldeild UIAH, Listiðnaðaháskólanum í Helsinki Finnlandi (nú Aalto University) árið 1988 og hafði áður lokið B.Ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands. Frá árinu 1989 hefur hún kennt textílþrykk í Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, við Textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík og í Textíldeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands. Hún vinnur að margvíslegum textílverkum og bókverkum og hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum hér heima og erlendis.
Hér má lesa nánar um sýningu Helgu Pálínu