Á sýningunni sýna útskriftarnemendur í myndlist, vöruhönnun, fatahönnun, grafískri hönnun og arkitektúr verk sín.
Sýningin stendur til 12. maí 2019, frekari upplýsingar um opnunartíma og dagskrá viðburða á sýningunni má finna á http://listasafnreykjavikur.is/
_____________________
Kæra fólk;
Geimfar bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, Forvitni (Curiousity Rover), lenti á Mars 6. ágúst 2012 og hefur verið iðið við sýnatöku og rannsóknir allar stundir síðan. Farinu var spáð tveimur árum á rauðu plánetunni en Forvitni eru engin takmörk sett og hefur lifað lengur en nokkur þorði að vona. Nú hefur rannsóknarleiðangur Forvitni verið framlengdur að eilífu. Í hvert sinn sem farið tekur sýni smellir það einnig sjálfu af sér og nánasta umhverfi. Þannig stundar Forvitni sjálfsskoðun sem er ekki einungis lífsnauðsynleg farinu heldur varpar einnig ljósi á afstöðu og sjónarhorn.
Hugmyndaauðgin spannar hið óendanlega. Leitin að nýjum löndum til að plægja, hinu ókannaða, forvitnin leiðir um kima og króka, víddir og vanga heimsins. Leit að viðfangsefni fyrir frumsköpun.
Viðfangsefni útskriftarsýningar LHÍ í ár er m.a. hegðunarmynstur katta, Sigmundur Davíð í paradís, tyggjóklessur, súrsun, súrnun sjávar, yfirgefin hús, bjór, ungir og efnilegir fjárfestar, veðrið, brjáluð kona, Mjallhvít í kröppum dansi, nótnaskrift, stálslegnir fornmunir, fuglsfjaðrir, sjálfsbjargarviðleitni, melgresi, garður ömmu þinnar, þú hefur mögulega séð þetta áður?
Athyglisverður áhorfandi, tákn með tali, tálkvendi, líkvökur í Litháen, rafmagn, lakkrís og/eða rafmagnssnúrur, jafnvægi, tilbúinn hrákadallur, þinn eigin töfraljómi, eftirstríðsár Póllands, H&M plastpoki, loftræstikerfi, rennandi blautur sófi, afsal karlmennskunnar, mælieiningar, jarðbundinn leir, hákarlamaður, á leið til úrsmiðs.
Nálgast má sýninguna af samskonar óþrjótandi forvitni og geimfarið Forvitni kannar Mars. Eins mörg og ólík viðfangsefni sýningarinnar eru þá má í þeim spegla sjálfið / eilífðina og öðlast að launum nýja sýn.
Þetta hefur aldrei sést áður.
Birta Fróðadóttir og Hildigunnur Birgisdóttir (sýningastjórar)