15. febrúar, 2021
FG
Um stund nefnist sýning sem var opnuð þann 18. febrúar í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi. Hér sýnir myndlistarkonan Bryndís Björgvinsdóttir verk sem spanna árin 2015-2021 og fær með sér Bryndísi Steinu Friðgeirsdóttur í þetta ferðalag þar sem hún miðlar elsta verkinu á sýningunni Skósögur á nýjan máta. Bryndís Friðgeirsdóttir er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar.
Vetraríki Vestfjarða
Í verkunum á sýningunni endurspeglast saga kvenna og vetrarnáttúruafla gegnum blandaða tækni þar sem málaralist, textíll, útsaumur, ljósmyndun og form tvinnast saman. Síðustu árin hefur Bryndís verið búsett á Vestfjörðum þar sem daglegir göngutúrar um hennar nánasta umhverfi hafa gefið henni aukinn innblástur. Vetrastemning og göngutúrar koma sterkt fram í nýrri verkum hennar sem endurspegla upplifun hennar í vetrarríki Vestfjarða. Bryndís fangar augnablik sem hún upplifir og heldur áfram að vinna með gönguna, skóna og sporin sem við skiljum eftir okkur. Augnablik þar sem hún deilir með okkur þeirri upplifun sinni að búa úti á landi í þeirri kyrrð, ró og myrkri sem því fylgir. Þessu nær hún að miðla til okkar með skósögu- og frásagnarlist gegnum þennan hversdagslega hlut, skóinn, sem allir telja jafnframt svo eðlilegt að endurspegli persónulegan stíl eða tilfinningu.
Sögur kvenna í fyrirrúmi
Elsta verkið í þessu samansafni er verkið Söguskór. Það hóf göngu sína árið 2015 þegar Bryndís fékk gefins muni frá konum og fylgdu þeim sögur eða minningarbrot sem hún saumaði í skó sem nú móta hangandi söguhring 198 kvenna. Verkið byrjaði sem samvinnuverkefni með Hönnunarstofunni Oloop Design í Slóveníu. Bryndís hélt svo námskeið í Borgarbókasafni Reykjavíkur sem gekk út á samvinnu við konur af erlendum uppruna, flóttakonur og innflytjendur þar sem þær tjáðu sögu sína, ferðalag, bakgrunn og minningar í gegnum textíl. Í framhaldi var haldin samsýning í Borgarbókasafninu. Stuttu síðar tók Bryndís þátt í annarri samsýningu í Anarkía listasal í Kópavogi. Þar hófst gönguför verksins þar sem 18 skór endurspegluðu hvað einstaklingurinn hefur mikið að segja og hvernig þeir skilja eftir sig spor og geyma minningar. Verkið Söguskór þróaðist svo áfram nokkrum árum síðar fyrir samsýningu hjá Nordic Textil forum árið 2018, haldin í Borås í Svíþjóð. Nú verður það sýnt aftur í stærri og nýrri útgáfu í Gallerí Gróttu dagana 18. febrúar til 13. mars 2021.