Stúdíó Gerðar er fræðslurými og tilraunastofa þar sem við gerum eigin listaverk innblásin af sýningum safnsins og listaverkum Gerðar Helgadóttur. Stúdíó Gerðar hefur nú fengið nýtt útlit með sérhönnuðum húsgögnum eftir Hildi Steinþórsdóttur, arkitekt, og Rúnu Thors, vöruhönnuð. Í Stúdíói Gerðar verða einnig kynntir teiknileikir undir heitinu Kvik strik eftir Eddu Mac, myndlistamann.
Á laugardaginn 12. nóvember kl. 13-15 verður haldið upp á nýtt Stúdíó Gerðar með listsmiðjum fyrir alla fjölskylduna. Hildur Steinþórsdóttir og Rúna Thors verða með fjölskyldusmiðju kl. 13 þar sem við byggjum saman heim úr óvæntum efnum. Linn Björklund, myndlistarmaður, mun leiða teiknismiðju kl. 14 í anda Kvik strik, þar sem við gerum skemmtilegar teiknitilraunir í Gerðarsafni og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Fjölskyldusmiðjurnar eru öllum opnar og aðgangur ókeypis.
Í sölum Gerðarsafns verður sýningun Þá opin gestum og gangandi. Garðskálinn verður opinn á neðri hæð safnsins þar sem fæst hádegisverður og kaffiveitingar.
Listsmiðjurnar í Stúdíói Gerðar eru hluti af fjölskyldustundum í Menningarhúsum Kópavogs, sem haldnar verða á laugardögum í allan vetur. Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Salurinn ljúka upp dyrum sínum og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem er gestum að kostnaðarlausu.
Sjá nánar á vefsíðu Gerðarsafns.