Ofin veggverk og stórir litaðir silkidúkar yfirtaka rými salarins og skapa samhengi hugmynda Hildar. Verkin eiga sér hugmyndalegar rætur í sköpunarferli sem byggir á landinu og þeim gróðri sem upp af því vex. Hildur hefur litað silkidúkana og garnið sem veggverkin eru ofin úr með litum úr íslenskum jurtum sem Hildur hefur safnað saman og soðið niður.
Samhliða sýningunni kemur út bókin Tilvist lita þar sem hugmyndir og vinna Hildar síðustu ár eru teknar saman.
Hildur Bjarnadóttir (f. 1969) býr og starfar í Reykjavík og í Flóahreppi. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið 1997 með MFA próf frá nýlistadeild Pratt Institute í New York. Hildur á að baki fjölda einkasýninga og samsýninga hér heima og erlendis og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Verk eftir hana eru í eigu helstu safna á Íslandi auk þess sem verk eftir hana eru hlut safneigna alþjóðlegra listasafna. Hildur gegnir nú stöðu dósents við Listaháskóla Íslands.
Sýningarstjóri er Ólöf Kristín Sigurðardóttir.
Sýningin stendur til 22. janúar 2017
Sjá nánar hér