08. maí, 2017
FG
Árleg vorsýning Myndlistaskólans í Reykjavík verður opnuð fimmtudaginn 11. maí kl. 17:00 í húsnæði skólans á 2. og 3. hæð í JL-húsinu, Hringbraut 121. Sýningin verður opin milli kl. 13:00 og 18:00 næstu daga en henni lýkur þriðjudaginn 16. Maí. Verkin á sýningunni eru eftir 124 nemendur sem stunda samfellt nám í dagskóla.
Í sjónlistadeild eru nemendur ýmist í eins eða tveggja ára grunnnámi í fjölbreyttum greinum myndlistar. Tveggja ára námi lýkur með stúdentsprófi af listnámsbraut en nemendur í eins árs námi hafa áður lokið stúdentsprófi frá öðrum skóla og taka fyrst og fremst verklega listnámsáfanga til að búa sig undir háskólanám í list- og hönnunargreinum.
Á sýningunni sýna nemendur á fyrra ári listnámsbrautar verk sem þau hafa unnið í íslenskuáfanga við skólann en útskriftarnemendur úr eins og tveggja ára námi við deildina sýna persónuleg lokaverkefni. Það gera einnig fyrstu 12 nemendurnir sem útskrifast úr tveggja ára námi í myndlist til viðbótar við starfsbraut framhaldsskóla. Markmiðið með náminu er að gefa fólki með þroskahömlun færi á að rækta hæfileika sína frekar í faglegu námsumhverfi. Námsbrautin er í takt við það sem fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er tilgreint mikilvægi þess að fólk hafi tækifæri til að rækta og njóta hæfileika sinna sem og rétt fólks til að stunda nám á öllum skólastigum.
Nemendur á keramikbraut, listmálarabraut, teiknibraut og textílbraut sýna brot af verkefnum skólaársins en um er að ræða tveggja ára námsbrautir í myndlist, hönnun og listhandverki ætlaðar nemendum með stúdentspróf af listnámsbraut. Námið miðar að því að dýpka fagþekkingu nemenda, auka víðsýni þeirra og undirbúa þá fyrir vinnu sem sjálfstæðir listamenn eða hönnuðir. U.þ.b. fjórðungur námsins er af fræðilegum toga og er áhersla lögð á heimspeki, listasögu, sögu og starfsumhverfi viðkomandi greinar, auk menningar- og viðskiptaumhverfis samtímans. Námið er skilgreint sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi en er jafnframt ígildi áfanganáms á BA-stigi þar sem það hefur verið metið til 120 ECTS eininga af samstarfsskólum Myndlistaskólans erlendis.
Sjá viðburð á Facebook.