Í samstarfi við Ömmu mús – handavinnuhús býður Listasafn Reykjavíkur upp á vinnustofu í útsaumi á Kjarvalsstöðum í tengslum við sýningu á verkum William Morris sem þar stendur yfir. Markmiðið er að skapa vettvang þar sem handverksfólk kemur saman og saumar út mynstur sem William Morris hannaði. Lára Magnea Jónsdóttir, textílhönnuður, veitir aðstoð á staðnum.
William Morris (1834-1896) var listamaður, hugsuður, rithöfundur og samfélagsrýnir sem hafði mikil áhrif á samtíma sinn. Hann var framúrskarandi handverksmaður og bar sig eftir því að læra að sauma og vefa; handverk sem jafnan hafði verið verk kvenna. Fyrir Morris var handverkið í hávegum og átti að vera aðgengilegt öllum. Nú þegar fjölbreytt verk Morris eru til sýnis í Listasafni Reykjavíkur er viðeigandi að útsaumur og handavinna fari fram á safninu.
Vegna mikillar aðsóknar hefur þátttakendahópurinn verið stækkaður og enn eru örfá sæti laus. Vinnustofan fer fram fjóra sunnudaga í september og kostar skiptið 1.000 kr.
Efnisgjald er ekki innifalið en í safnversluninni á Kjarvalsstöðum eru til sölu útsaumssett með mynstrum William Morris: Bókamerki, útsaumsmyndir og púðar.
Skráning fer fram á heimasíðu safnsins.
Nánari upplýsingar veitir Aldís Snorradóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur. aldis.snorradottir@reykjavik.is
Fyrsta sunnudaginn, þann 8. september verður byrjað á léttri leiðsögn fyrir þátttakendur vinnustofunnar um sýninguna Alræði fegurðar!
Handhafar Menningarkorts og Árskortshafar fá 10% afslátt af þátttökugjaldi og útsaumssettum í safnbúðinni.