Dagana 7. og 8. júní fór XpoNorth fram í bænum Inverness í Skotlandi. Um er að ræða tveggja daga árlegan viðburð þar sem áhersla er á fjölbreyttar skapandi greinar.
Í ár tóku nokkrir Íslendingar þátt í XpoNorth - Crafts, Fashion and Textiles. Sýningin SHIFT var sett á hátíðinni en þar er stefnt saman fjölbreyttum verkum skoskra og íslenskra samtímahönnuða sem vinna í leir, tré, eðalmálma og textíl. Þeir hittust í fyrsta sinn á HönnunarMars, skiptust á hugmyndum og byrjuðu þróunarvinnu fyrir áframhaldandi samstarfsverkefni. Þeir Íslendingar sem taka þátt í þessu samstarfi eru Agustav (Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson), Arndís Jóhannsdóttir, Doppelganger (Guðrún Lárusdóttir og Ragna Fróða) og Guðný Hafsteinsdóttir.
Tilgangur SHIFT er að gefa ólíkum hönnuðunum kost á faglegu samtali og útbúa farveg þar sem þeir geta veitt hver öðrum innblástur. Fyrsta sýningarverkefni hópsins var í Gallerí Gróttu en með áframhaldandi samstarfi í gegnum röð sýninga og viðburða í Skotlandi og á Íslandi munu hönnuðirnir fá tækifæri til að kynnast heimkynnum, umhverfi, hæfileikum, reynslu, efnisnotkun og tækni hvers annars.
Það eru skosku samtökin Emergent sem standa fyrir þessu verkefni og er HANDVERK OG HÖNNUN samstarfsaðili þeirra. Litið er svo á að verkefnið sé í senn vettvangur fyrir ferskar hugmyndir og nýja nálgun í skapandi framleiðslu. Því er einnig ætlað að efla og búa til tengingar við nýja markhópa og stuðla að nánari tengslum milli Íslands og Skotlands.
Í tengslum við sýninguna á XpoNorth voru pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Shift: Scottish Icelandic Maker Collaborations. Þátttakendur voru Hilary Grant, Guðrún Lárusdóttir (Doppelganger), Netty Sopata (Diggory Brown), Águsta Magnúsdottir (AGUSTAV) og Sunneva Hafsteinsdóttir (HANDVERK OG HÖNNUN) en Carol Sinclair stjórnaði um umræðunum.
Einnig var Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands með erindi (Building the Economy on Creativity) á XpoNorth.
Þátttakendur í SHIFT:
Agustav (Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson) www.agustav.com
Arndís Jóhannsdóttir www.disa.is
Doppelganger (Guðrún Lárusdóttir og Ragna Fróða) www.doppelgangercollection.com
Guðný Hafsteinsdóttir www.gudnyhaf.is
Julia Smith www.juliasmithceramics.com
Hilary Grant www.hilarygrant.co.uk
Diggory Brown (Netty Sopata) www.diggorybrown.com
Eileen Gatt www.eileengatt.co.uk
Yellow Broom (Clare Waddle og David Robson) www.yellowbroomproduct.co.uk
Sýningarstjórar: Carol Sinclair og Pamela Conacher
Nánari upplýsingar um samstarfið má finna hér