Málþing samantekt

HANDVERK OG HÖNNUN stóð fyrir málþingi sem haldið var í Norræna húsinu þann 26. febrúar 2005, sem bar yfirskriftina:
Íslensk hönnun og listhandverk - sýningar erlendis: Washington - París - Berlín - Kaupmannahöfn

Birna Kristjánsdóttir, formaður stjórnar HANDVERKS OG HÖNNUNAR og sýningarstjóri SPOR, Kaupmannahöfn setti málþingið. Hún bauð gesti velkomna og kynnti sérstakan gest málþingsins Dr. Judy L. Larson, sem er forstöðumaður National Museum of Women in the Arts í Washington og sýningarstjóri samnorrænu sýningarinnar Nordic Cool: Hot Women Designers sem haldin var 23. apríl til 12. september 2004. 

Dr. Judy L. Larson byrjaði á að segja frá undirbúningi sýningarinnar sem var langur og strangur. Aðstoðarsýningarstjóri var Jordana Pomroy . Þær ferðuðust fyrri hluta árs 2003 um öll Norðurlöndin og kynntu sér hönnun og listhandverk. Þær heimsóttu vinnustofur, gallerí, búðir og söfn í leit að bestu kvenhönnuðum Norðurlöndanna. Þær leituðust við að skoða hönnun kvennanna í samhengi við landslag, veðurfar, menningu og daglegt líf, fremur en að setja hana í eitthvað sögulegt samhengi. Þær komust að því að löndin fimm: Ísland, Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð ættu margt sameiginlegt en þó hvert sinn persónuleika og sérkenni.

Eftir að hafa skoðað fleiri hundruð verk voru eftirfarandi þemu valin: brautryðjendur • fjöldaframleiðsla • konur í skandinavískri hönnun • líkamstjáning • að skilgreina sjálfa sig • hringrás lífsins • heima • landslag og árstíðir • jurta- og dýraríki • siðir og venjur • horft til framtíðar. Sýningunni var svo líka skipt niður eftir þessum mismunandi þemum.

Yfir 200 fjölbreyttir munir frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi voru loks valdir til sýningar. Frá Íslandi völdu þær verk þrjátíu og tveggja kvenna. Þær sem tóku þátt í sýningunni voru: Anna Guðmundsdóttir, Arkibúllan (Hólmfríður Jónsdóttir, Heba Hertervig og Hrefna Thorsteinsdóttir), Arndís Jóhannsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir, ELM Design (Erna Steina, Lísbet, og Matthildur), Erla Sólveig Óskarsdóttir, Fanney Antonsdóttir, Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir, Guðrún Halldórsdóttir, Guðný Magnúsdóttir, Halla Bogadóttir, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Hildur Bolladóttir, Högna Sigurðardóttir, Kogga (Kolbrún Björgólfsdóttir), Kristín Sigfríður Garðarsdóttir, Kristín Ísleifsdóttir, Linda Loeskow, Ragnheiður Guðmundsdóttir, Rósa Helgadóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Tinna Gunnarsdóttir, Tína Jezorski, Tó - Tó (Anna Þóra Karlsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir), Þorbjörg Valdimarsdóttir, Þórey S. Jónsdóttir og Þórhildur Þorgeirsdóttir.

Á málþinginu sýndi Judy fjölmargar myndir frá sýningunni og tók mörg dæmi um athyglisverða hönnun. Hún nefndi m.a. mjög sniðugar lausnir á hversdagslegum hlutum eins og til að mynda í vöruhönnun. Gott dæmi um það væri picnic-kælitaskan sem hönnuð er af Evu Schildt (Svíþjóð, 2001). Judy sagði sterka hefð væri fyrir textílhönnun á öllum Norðurlöndunum. Norrænir kvenhönnuðir væru mjög djarfir og í textíl- og fatahönnun og öll löndin hefðu ákveðna sérstöðu. Gott dæmi um það væri Marimekko sem stofnað var árið 1951 í Finnlandi með það að markmiði að skapa föt á viðráðanlegu verði. Nú væri Marimekko að koma aftur mjög sterkt inn á markaðinn. Hvað varðar hönnun á gler- og leirmunum væru mörg dæmi um að hlutir til daglegra nota væru hin glæsilegasta hönnun sem væri jafn góð áratugum eftir að hlutir væru framleiddir. Judy nefndi sem dæmi „Apple" glervasa hannaðan af Ingeborg Lundin (Svíþjóð, 1957) og postulínstesett eftir Gertrud Vasegaard (Danmörk, 1956).
Norrænir skartgripahönnuðir hafa verið brautryðjendur í að skeyta saman ólíkum og óvenjulegum efnum í listsköpun sinni. Gott dæmi um það væri hönnun Höllu Bogadóttur á skarti úr silfri og baggalút. Á síðustu árum hefur kvenkyns húsgagnahönnuðum fjölgað mikið á Norðurlöndunum. Grete Jalk og Nanna Ditzel báðar frá Danmörku hafa verið meðal frumkvöðla þar. „Bench for two" úr hlyn eftir Nanna Ditzel varð einskonar tákn sýningarinnar Nordic Cool: Hot Women Designers.
Arkitektúr er ef til vill það form hönnunar sem konur hafa átt hvað erfiðast uppdráttar í. Engu að síður er einn athyglisverðasti arkitektinn núna Íslendingurinn Högna Sigurðardóttir.
Í ágústhefti The New Yorker 2004 rakst Judy á tilvitnun um íslenskan jazz, sem henni fannst einnig eiga vel við um íslenska hönnun: „Icelanders, in their isolation, have always quilted into their culture whatever useful influences they have found on the outside. They live so far from the rest of the world that they have had to remake it on their own terms. They are icebound cosmopolitans, studying is all“.

Það má segja að að íslensk hönnun sé siðfáguð og heimsborgaraleg og endurspegli að Íslendingar fylgjast vel með því sem er að gerast í hönnunarheiminum. En einnig má segja að Íslendingar séu trúir uppruna sínum. Í íslenskri hönnun eru gamlar handverkshefðir gjarnan notaðar sem innblástur til að skapa eitthvað algjörlega nýtt og ferskt. Listamenn líta til baka, skoða mismunandi aðferðir, tengja saman og fá nýja útkomu. Íslensk hönnunarhefð er rík og fjölbreytt og á Íslandi er þétt samfélag einbeittra og agaðra listamanna. Kannski er það vegna þess að Ísland er landfræðilega einangruð eyja? Samt sem áður ná Íslendingar að hugsa og framkvæma á heimsmælikvarða. Þeir íslensku listamenn sem Judy og Jordana hittu voru undir áhrifum m.a. frá Japan, Frakklandi, Ítalíu, hinum Norðurlöndunum og Bandaríkjunum en engu að síður náðu hin íslensku sérkenni þeirra að skína í gegn.

Þeir kvenhönnuðir sem Judy og Jordana hittu voru fjölhæfir. Konur eru það yfirleitt. Konur læra nauðsyn þess að búa til hluti úr afgöngum – skeyta saman efnum og afgöngum og búa til einhverja nýja heild, hvort sem það er bútasaumsverk eða girnilegur pottréttur úr afgöngum. Íslendingar hafa þurft að komast af í hrjóstugu landi. Þess vegna hafa margir hönnuðir nýtt það sem hér finnst – ull, roð, hraungrýti, hreindýrahorn og rekavið.
Það sem Judy fannst einnig aðdáunarvert var samvinnuandinn sem ríkir hérlendis meðal hönnuða, að hér ríki allt frá vináttu til sameiginlegra rekstrareininga eins og Kirsuberjatrésins. Íslenskir hönnuðir eru ekki einungis bundnir hinu einstaka íslenska landslagi heldur styðja þeir líka hver annan. Samstarfið hjá ELM Design og Tó-Tó eru tvö góð dæmi um kvenhönnuði sem vinna saman.

Að lokum þakkaði Judy þeim íslensku konum sem tóku þátt í sýningunni „Nordic Cool: Hot Women Designers" og sagði að þær hefðu allar átt sinn þátt í að styrkja sýninguna verulega. 

Rósa Helgadóttir, textílhönnuður tók þátt í sýningunum SPOR í Kaupmannahöfn Transforme í París og Nordic Cool: Hot Women Designers í Washington. Hún sagði frá tösku sem hún hefur hannað og er eins kúla í laginu. Kúlutaskan var fyrst sýnd á sýningunni SPOR í Kaupmannahöfn. Hugmyndina að töskunni fékk Rósa er hún dvaldi í Eindhoven við nám. Rósa þróaði síðan töskuna og endurbætti fyrir sýninguna SPOR.
Árið 2004 fóru svo fimm rauðar töskur eftir Rósu á sýninguna TRANSFORME í París, í enn endurbættri útgáfu. Rósa hafði þróað töskuna mikið eins á sjá má á myndunum hér að neðan. Þrjár af þessum nýju töskum fóru svo á sýninguna í Washington. Nú er kúlutaskan hins vegar á leið í enn nýjan og einfaldari búning og jafnvel í fjöldaframleiðslu.

Kristín Sigfríður Garðarsdóttir, leirlistamaður tók þátt í sýningunum SPOR í Kaupmannahöfn, design.is í Berlín, Transforme í París og Nordic Cool: Hot Women Designers í Washington. Hún sagði það hefði verið frábært tækifæri að fá taka þátt í sýningum á borð við þessar. Þó hún hafi stundum fengið á tilfinninguna að verk sín væru bara eins og lítið pensilfar í stóru verki sýningastjórans, þ.e.a.s. þegar sýningin sem heild væri hönnuð, hefði sterka umgjörð eða ramma og sýnendur ynnu útfrá einhverju fyrirframgefnu þema.
Kristín sagðist líka oft hafa velt fyrir sér eins hvort þetta sýningastúss skilaði einhverju þegar upp væri staðið. Því það að vera valin til að taka þátt í sýningum, er ekki kannski alveg nóg, þó það sé uppörvandi. Stundum gerist ekkert í kjölfarið. En þó það skili sér ekki um leið og búið er að taka sýninguna niður, þá sagðist hún viss um að það getur gefið ýmis tækifæri að vera þátttakandi.
Kristín Sigfríður sagðist sannfærð um að það hefði hjálpað sér til að komast inn á: The Shigarki Ceramic Cultural Park í Japan þar sem hún dvaldist í þrjá mánuði sl. haust. Og að meiri líkur séu á að fá úthlutun úr styrktarsjóðum ef viðkomandi getur sýnt fram á að hann sé virkur og verkin sýnileg. Einnig sagðist hún trúa að svona sýningar væru mjög mikilvægar til að kynna íslenska hönnun en það þyrfti að fylgja þeim betur eftir.
Það vantar einhverskonar umboðsfyrirtæki eða stofnun sem veitir ráðgjöf í markaðs- og sölumálum hér heima og erlendis. Því fyrir hvern einstakling er það bæði flókið mál og mikil vinna að finna út úr markaðsmálum. Hægt væri að taka Dani og fleiri þjóðir til fyrirmyndar í þessum efnum.

Guðlaug Halldórsdóttir (Gulla), textílhönnuður, rekur verslunina Má Mí Mó Tryggvagötu 16 og einnig Verksmiðjuna að Skólavörðustíg 4a ásamt 7 öðrum hönnuðum. Hún hefur sýnt 6 sinnum í París á tískuviku og tvisvar í Kaupmannahöfn. Einnig hefur hún sýnt á húsgagnasýningum í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. En auk þessa tók hún þátt í Transforme í París og í sýningu Handverks og hönnunar í Sívalaturninum í Kaupmannahöfn. Hún fjallaði um væntingar sínar, upplifun og niðurstöðu af þátttöku í þessum sýningum.
Væntingar:
- Að slá í gegn
- Að kaupendur berjist um að panta hjá sér.
- Að hún vekji athygli fyrir frumlegheit, góða hönnun, gæði og sérstöðu.
- Að hún selji fullt í flottar búðir og varan verði sýnileg um allan heim.
- Að hún fái umfjöllun.
Upplifun:
- Hún er þakklát fyrir að fá að vera með í þessu verkefni á vegum Útflutningsráðs og virðir það sem þeir eru að gera fyrir íslenska hönnun og hönnuði.
- Það er erfitt að uppgötva að kaupendurnir bíða ekki í röðum.
- Það er erfitt að standa og bíða og vona að kaupendur sýni áhuga og vona að einhver í hópnum fái pöntun.
- Það er erfitt að selja sjálfan sig og eigin hönnun, margir hafa sölumenn og stundum á prósentum.
- Það vantar forvinnu, s.s. búa til stefnumót við kaupendur.
- Það er nauðsynlegt að vera búin að kynna hönnunina og sjálfan sig fyrirfram.
- Það er ekki nóg að mæta bara á sýninguna.
- Sumar borgir eru betri en aðrar, þar eru mismunandi kaupendur. Í París á sýningunni Hortensia de Hutten eru smærri hönnuðir en í Kaupmannahöfn eru stærri og öflugri fyrirtæki með sölumenn í vinnu.
Flestir kaupendur koma til að skoða hjá sínum fastakúnnum, panta og treysta viðskiptasambönd. Þeir eru líka að skoða hjá öðrum, en þar sem sýnendur eru margir vill þetta renna allt saman. Kaupendur vilja líka sjá þessa nýju sýna nokkrum sinnum, til að sjá að þeir séu komnir til að vera, þrauki áfram.
Niðurstaða:
- Forvinnan skiptir öllu máli.
- Eftirfylgni er nauðsynleg.
- Er hugsanlegt að það þurfi að fá fólk til að þykjast vera kaupendur að gera pöntun og búa til spennu og fá athygli?
- Þarf að halda góða veislu á spennandi veitingahúsi og hafa slide-show og kynna bæði hönnun og hönnuði?
- Er betra að hafa sölumann á prósentum á básnum?
- Þreifingar eru nauðsynlegar, hvaða sýning hentar hverjum?
- Eitthvað er ekki að virka því sölutölur eru ekki háar, miðað við útlagðan kostnað.
- Það er þroskandi og lærdómsríkt að sýna erlendis á tískuviku.

Í lokin velti Gulla fyrir sér hvað hún sæi fyrir sér sem hugsanlegt framhald:
- Miðla þeirri þekkingu sem þegar er áunnin.
- Halda áfram að sýna og þreifa eftir öðrum staðsetningum. Hún hefur áhuga á að sýna áfram í Kaupmannahöfn og prófa að sýna í London og New York.
- Prófa að vinna meiri forvinnu og skoða síðan árangur til samanburðar.
Gullu finnst þessi þátttaka tvímælalaust opna ný tækifæri og gefa færi á að sýna erlendis þar sem kaupendur eru af flestum þjóðernum.
Þetta veitir innsýn í aðþjóðlega markaðssetningu og sölu og einnig er möguleiki á að fá fjölmiðlaumfjöllun.
Þetta er gott tækifæri til að ná sambandi við aðila erlendis, kaupendur, aðra sýnendur og býr til tengsl við þá aðila sem sýnt hafa vörunni áhuga. Möguleiki er á að halda tengslum.

Kristveig Halldórsdóttir, myndlistarmaður tók þátt í Transforme, París og SPOR, Kaupmannahöfn. Hún velti fyrir sér hvað kæmi út úr svona sýningarþátttöku erlendis. Það væri kannski ekki svo mikið sem hægt væri að rekja beint til sýninganna. Hún fór á hvoruga sýninguna, en að hennar mati mætti gefa sýnendunum tækifæri á að vera viðstaddir opnanir erlendis.

Að hennar mati var einn helsti ávinningur SPOR sýningarinnar sá að verkið sem hún sýndi þar fékk umfjöllun í Design from Scandinavia. Kristveig sagðist hafa útbúið heimasíðu í tengslum við Transforme sýninguna í París og sett upp netfang en ekki fengið eina einustu fyrirspurn. Hún sagði sagði sínar væntingar væru að efla tengsl milli hönnuða og listamanna, og sýningar væru gott tækifæri til að hittast. Það þyrfti að vinna að tengslum og samvinnu listamanna og fyrirtækja og bjóða fleiri aðilum að taka að sér sýningarstjórn á þemasýningum.

Tó - Tó, Anna Þóra Karlsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir, myndlistarmenn og textílhönnuðir tóku þátt í sýningunum SPOR, Kaupmannahöfn, Transforme, París og Nordic Cool: Hot Women Designers, Washington.

Þær sögðust líta á það sem vissa viðurkenningu að vera valinn inn á sýningar sem vel er að staðið. Þær hafi ekki verið viðstaddar sýningaropnanir á Nordic Cool og Transforme og ekki séð sýningarnar og upplifunin þar af leiðandi fjarlæg. Sýningar sem þessar veita möguleika á frekari kynningu, samböndum, styrkjum og vera sýnilegur og marktækur og það að máta sig við aðra sýnendur.
Guðrún og Anna Þóra sögðu að það hafi verið akkur að taka þátt í báðum sýningunum. Upplifunin í kringum Nordic Cool hafi verið frekar lítil þar sem þær sáu ekki sýninguna, voru aðeins með eitt teppi á sýningunni, ekki mynd í sýningarskrá og sáu enga umfjöllun um sýninguna. Upplifunin af Transforme hafi verið töluvert meiri. Spor hafi hins vegar verið mjög ólík hinum tveimur og upplifunin kannski meira handverk en hönnun.
Guðrún og Anna Þóra töluðu um að þegar sýningar væru settar upp erlendis skipti miklu máli að sýnendum væri gert kleift að vera við opnun og þannig að fylgja betur eftir verkum sínum og mynda sambönd. Ráðuneytin senda út sitt fólk en sýna hönnuðum og listamönnum lítinn skilning þegar kemur að því að greiða götu þeirra fjárhagslega.
Þeirra framtíðarsýn fyrir HANDVERK OG HÖNNUN væri að sýningar HANDVERKS OG HÖNNUNAR verði þannig uppbyggðar að þar færi fram markviss hugmyndafræðileg sýningastjórn með mismunandi sýningastjórum og áherslum, færri sýnendum og að fólk fái jafnvel greitt fyrir að vinna verk fyrir viðkomandi sýningar og meira verði lagt upp úr því að kynna hvern sýnanda og fyrir hvað hann stendur, en hægt væri að setja upp fjölmennari sýningar inn á milli.

Hrafnkell Birgisson, vöruhönnuður og sýningarstjóri design.is, Berlín flutti erindið „Ímynd og arfleifð – sýningar á íslenskri hönnun". Hann sagði frá skipulagningu hönnunarsýningarinnar design.is sem haldin var í Berlín 2003. Hann hafði lengi gælt við þá hugmynd að kynna valinn hóp íslenskra hönnuða í Þýskalandi, það kom síðan til að hann fékk tækifæri til þess að setja upp sýningu í samstarfi við íslenska sendiráðið í Samnorræna Húsinu í Berlín. Hugmyndin að þessari sýningu var algjörlega á hans ábyrgð tók við langt ferli við að leita að styrktaraðilum. Eftir margra mánaða leit fékkst vilyrði bæði frá Menntamálaráðuneyti og Iðnaðarráðuneyti sem urðu megin stryktaraðilar verkefnisins en að auki styrktu sýninguna Íslandsbanki, Útflutningsráð, Katlatravel, Ferðamálaráð og Samskip með flutningi.
Hrafnkell fékk svo til liðs við sig sem listrænan meðstjórnanda Sólveigu Sveinbjörnsdóttur myndlistarmann og í sameiningu völdu þau u.þ.b. 20 ólíka íslenska hönnuði til að taka þátt í sýningunni. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við, í stað þess að velja tilbúna hluti frá þessum hönnuðum, að úthluta við þeim þema sem þeir áttu að vinna útfrá hlut eða seríu hluta.
Það voru ýmsar spurningarnar sem vöknuðu við undirbúninginn á sýningunni. Er til eitthvað sem hægt er að skilgreina sem íslenska hönnun? Fólki hættir kannski til að vilja kreista ákveðin einkenni fram. Sumir telja sig samt taka eftir sérstöðu íslenskrar hönnunar og er það mjög af hinu góða.
Hönnun er samt sem áður tæki til að draga fram menningarlega sérstöðu og í því felast möguleikarnir á að skera sig úr í samkeppni við aðrar vörur og byggja upp sérstæða ímynd.
Hugmyndin sem þau Sólveig fengum var að nota gömul íslensk minni og þjóðsagnir sem útgangspunkt í leit að sér íslenskum einkennum. Hönnuðirnir voru beðnir um að hugleiða bakgrunn íslenskra þjóðsagna um samskipti huldufólks og mannfólks og beina athygli sinni að þeim gjöfum sem huldufólk launaði ýmsa greiðasemi. Hvaða hluti myndi huldufólk gefa okkur í dag? Þemað átti að velta upp spurningum varðandi vægi hlutrænna tengsla í okkar nútímasamfélagi.
Hrafnkell og Sólveig ákváðu að búa til nokkurskonar færanlegt "landslag" sem sýningarumgjörð sem myndi nýtast vel við uppsetningar á fleiri stöðum og við ólíkar aðstæður. Útkoman var rúmlega 20 lítil sýningartjöld, eitt á hvern hönnuð, sem minntu á hóla eða þúfur og var dreift um rýmið. Þessi hönnun krafðist þess að hönnuðirnir tækju tillit til stærðar tjaldanna við útfærslurnar á verkum sínum.
Þegar leið að uppsetningu kom í ljós að nálgunin við þemað var mjög athyglisverð. Flestir hönnuðirnir unnu mjög huglægt og einbeittu sér að boðskapnum sem þeir vildu koma til skila með verkinu. Talsvert var um hugmyndir og hönnun tengdri lýsingu og birtu. Margir hlutanna endurspegluðu óefniskenndan heim og voru mjög minimalískir.
Viðtökurnar voru mjög góðar en margir gestir undruðust hversu lítið var af hefðbundnum nytjahlutum sem endurspeglaði viðhorf og boðskap hönnuðanna. Upphaflegt markmið sýningarinnar, að vekja athygli á íslenskum hönnuðum náðist vissulega en um 30.000 gestir heimsóttu hana á fimm vikum. Í framhaldi af sýningunni aðstoðaði sendiráðið okkur að dreifa sýningarskránni til nokkur hundruð aðila í Þýskalandi m.a. bókasafna.
Verkefnið var aldrei hugsað sem bein markaðssetning á því sem til sýnis var en er vissulega stærsta kynning sem íslenskir hönnuðir hafa fengið í Þýskalandi.

Þorbjörg Valdimarsdóttir, textílhönnuður tók þátt í sýningunum Nordic Cool: Hot Women Designers, Washington og Transforme, París.
Hún sagði frá ákveðnum sýningum sem hún hefur tekið þátt í frá því hún útskrifaðist og hvaða áhrif og þýðingu þessar sýningar hafa haft á vinnu hennar í framhaldinu. Þorbjörg segir að þær hafi að vissu leyti verið örlagavaldar í þróun hennar sem textílhönnuðar.
Hún segir að hennar biðu tvö verkefni strax eftir útskrift, fatahönnunarsýningin Futurice og sýning á vegum HANDVERKS OG HÖNNUNAR sem var sett upp í Ráðhúsinu, báðar þessar sýningar voru í tengslum við Reykjavík Menningarborg árið 2000. Verk fyrir báðar þessar sýningar vann Þorbjörg í samvinnu við Ragnheiði Guðmundsdóttur textílhönnuð, föt annars vegar og innanhúshönnun hinsvegar. Í framhaldi af þessum tveimur sýningum ákváðu þær að reyna að koma efnunum á framleiðslustig.
Þorbjörg hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og þar bera hæst Transforme sýningin í París og Nordic cool: Hot women Designers í Washington.
Allar sýningar sem Þorbjörg hefur tekið þátt í hafa opinberir aðilar komið að á einn eða annan hátt, t.d. Iðnaðar-og viðskiptaráðuneytið og Menntamálaráðuneytið, Reykjarvíkurborg og HANDVERK OG HÖNNUN. Einnig hefur Iðntæknistofnun skipt sköpum, bæði námskeið og ráðgjafaþjónustan sem þar er veitt. Að opinberir aðilar hlúi að menningarviðburðum og veiti áfram styrki í þróunarvinnu.er mjög mikilvæg fyrir hönnuði. En betur má ef duga skal, og vonar Þorbjörg að enn betur verði gert í náinni framtíð.
Hún segir að þessar tvær sýningar sem hún tók þátt í útskriftar sumarið sitt hafa verið stefnumótandi, því hún er enn að gera föt og innanhúshönnun. Einnig segir hún að sýningarnar sem hún hefur tekið þátt í hafi vísað henni leiðina áfram.Þær hafa haft mikið auglýsinga- og kynningargildi og ekki má vanmeta orkuna sem það gefur að einhverjum finnist það mikið til um það sem maður er að gera, að það sé sýningarhæft. Hún segir líka að það auki sjálfstraustið að takast á við öll þessi mismunandi verkefni

Valdís Harrysdóttir, tók þátt í Transforme, París og SPOR, Kaupmannahöfn. Hún bar saman væntingar, upplifun og niðurstöðu í sambandi við að taka þátt í sýningum. Vinna Valdísar miðast oftar en ekki að því að hanna vörur fyrir verslunina Kirsuberjatréð. Varan er sýnileg þar og það hefur gert það að verkum að henni hefur boðist að taka þátt í sýningum. Aðeins í undantekningartilfellum hefur hún hannað vörur sérstaklega fyrir sýningu. Á síðasta ári tók Valdís þátt í Transforme sýningunni í París og sýndi þar skálar. Hún sagðist ekki hafa haft einhver háleit markmið eða miklar væntingar í sambandi við þátttöku í sýningunni sennilega vegna þess að þó hún hafi verið búin að vera að vinna með þetta efni í all mörg ár þá var hún enn að glíma við tæknileg vandamál sem gerðu það að verkum að þriðja til fimmta hver skál fór í ruslið. Hún fylgdi sýningunni ekkert eftir, fór hvorki út sjálf né setti efni á vefinn eins og stóð til boða. Í framhaldi af Transforme síðastliðið sumar tók hún svo þátt í Sumarsýningu HANDVERKS OG HÖNNUNAR í Aðalstræti og sýndi þar svipaðar skálar og í París. Valdís segist líta á þá sýningu sem góða auglýsingu fyrir sig og búðina, ekki síst hve nálægðin var mikil. Þegar leið að hausti og Valdís var búin að finna lausnina á þessu tæknilega vandamáli sem hún hafði verið að glíma við og búin að birgja sig vel upp af skálum fyrir veturinn þá vildi svo til að fyrirvaralaust birtist ameríska stórmennið Bill Clinton í Kirsuberjatrénu og verslaði nokkrar skálar. Allt það fjölmiðlafár sem fylgdi í kjölfarið gerði það að verkum að skálarnar fengu hreint ótrúlega athygli og birgðirnar hurfu á svipstundu. Þannig að hvað varðar athygli og dreifingu stóð upp úr að fá frægan kynningarfulltrúa á vettvang!
Hennar niðurstaða er sú að taka hlutunum ekki of hátíðlega, gera sitt besta, vera viðbúin því versta og að þátttaka í sýningum sé fyrst og fremst landkynning og ánægjulegt að vera með.