Tveir indverskir listamenn, Laxmi Narayan Soni, gull og silfursmiður frá Bikaner, og Gopal Saini, leirlistamaður frá Jaipur dvöldu hér á landi í rúma viku til að vinna með íslenskum listamönnum. Þetta er fyrsta verkefnið sem stofnað er til eftir að Ísland og Indland undirrituðu áætlun um menningarsamstarf til þriggja ára í byrjun árs 2010.
Soni og Saini eru báðir þekktir listamenn á Indlandi og víðar og hafa hlotið viðurkenningar á því sviði. Þrjár íslenskar listakonur tóku þátt í verkefninu, þær Anna Gunnarsdóttir, Margrét Guðnadóttir ogMargrét Jónsdóttir. Anna og Margét Jónsdóttur starfa báðar á Akureyri en Margrét Guðnadóttir í Reykjavík. Þær eru allar þekktar af verkum sínum og hafa tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis.
Hópurinn vann saman og ferðaðist um landið og sýndi svo afrakstur vinnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur á Stefnumóti þann 30. sept. 2011. Sendiherra Indlands á Íslandi S. Swaminathan og Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta-og menningarmálaráðuneytisins ávörpuðu samkomuna.
Menningaráætlun Íslands og Indlands tekur til samstarfs landanna á sviði menningarmála. Gert er ráð fyrir að efnt sé til samstarfsverkefna og menningarkynninga með stuðningi stjórnvalda á Íslandi og Indlandi á þeim tíma sem áætlunin nær til eða til 2013 eftir því sem aðstæður leyfa.
Umsjón og skipulagningu á þessu verkefni fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti hafði : HANDVERK OG HÖNNUN • Aðalstræti 10• 101 Reykjavík.