HANDVERK OG HÖNNUN hélt hina árlegu sýningu á handverki, hönnun og listiðnaði í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 21. til 25. nóvember 2019. Fjölbreytnin réði ríkjum á sýningunni enda er gróskan mikil í íslensku handverki, hönnun og listiðnaði. Þessi sýning hefur verið gríðarlega vinsæl frá upphafi en hún var fyrst haldin árið 2006 og dregur alltaf að sér þúsundir gesta. Það eru listamennirnir og hönnuðirnir sjálfir sem eru á staðnum og kynna vörur sínar á sýningunni.
Skúlaverðlaunin 2019 voru afhent í lok fyrsta opnunardags sýningarinnar Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verðlaunin hlaut Guðný Hafsteinsdóttir keramiker og hönnuður sem hannar undir merkinu Gudnyhaf. Verðlaunin hlaut hún fyrir jólakúlur sem kallast "YOLO" og eru nýstárlegar jólakúlur úr steyptu postulíni.
Um hugmyndina að "YOLO" segir Guðný: „YOLO er stytting á You Only Live Once, sem er enskt orðatiltæki sem ungt fólk notar bæði á Íslandi og erlendis. En jörðin okkar lifir líka aðeins einu sinni og þess vegna langaði mig að nefna kúlurnar þessu nafni. YOLO kúlurnar vísa þó ekki aðeins í jörðina heldur líka himintunglin, miðbaug og hringi Satúrnusar."
Að auki var veitt ein viðurkenning en hana hlaut Philippe Ricart fyrir handofin sjöl/teppi sem hann nefnir "Heiðalönd" og er með litum og munstri frá heiðlóunni.
Skúlaverðlaunin eru styrkt af Samtökum iðnaðarins og var það Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI sem afhenti verðlaunin.
Sýningin Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur er haldin dagana 21.-25. nóvember og eru þátttakendur 55 talsins. Þeir sem valdir voru til þátttöku í sýningunni gátu tilkynnt til HANDVERKS OG HÖNNUNAR nýja vöru í verðlaunasamkeppni um besta nýja hlutinn. Skilyrðin voru að hlutirnir máttu hvorki hafa verið sýnis né sölu opinberlega fyrir sýninguna í Ráðhúsinu. Dómnefnd skipuðu María Kristín Magnúsdóttir skóhönnuður og Ýr Jóhannsdóttir textílhönnuður.
Verðlaunin eru kennd við Skúla Magnússon fógeta sem er frumkvöðull smáiðnaðar í Reykjavík.
Hér eru myndir frá afhendingu Skúlaverðlaunanna sem styrkt eru af Samtökum iðnaðarins.